Juncker útilokar frekari viðræður

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að frekari samningaviðræður á milli Breta og sambandsins komi ekki til greina. Breskir kjósendur verði að gera sér grein fyrir því.

„Út þýðir út,“ sagði Juncker á fundi með blaðamönnum í Brussel, höfuðborg Belgíu, í dag.

Eins og kunnugt er náðu leiðtogar ríkja Evrópusambandsins samkomulagi við bresk stjórnvöld, með David Cameron forsætisráðherra í broddi fylkingar, um miðjan febrúarmánuð um ákveðnar breytingar á stöðu Bretlands gagnvart sambandinu. Er Bretland nú meðal annars undanþegið grundvallarhugmynd sambandsins um nánari samvinnu ríkja þess.

Cameron hefur gefið í skyn í kosningabaráttunni að samþykki Bretar að vera áfram í Evrópusambandinu gæti hann þrýst á frekari tilslakanir. 

Juncker vísaði því hins vegar á bug og sagði Evrópusambandið ekki geta teygt sig lengra, nær Bretum. „Það verða engar frekari samningaviðræður,“ sagði hann við blaðamenn.

Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur jafnframt sagt að framtíð Evrópusambandsins sé að veði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi á morgun.

Yfirgefi Bretar Evrópusambandið ættu þeir í mikilli hættu að missa aðgang sinn að innri markaði sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert