Kynferðislegar árásir hluti af vígsluathöfn

Formaður nefndarinnar, Peter McClellan. Þúsundir hafa haft samband við nefndina …
Formaður nefndarinnar, Peter McClellan. Þúsundir hafa haft samband við nefndina og greint frá ofbeldi sem þeir sættu af hendi ástralskra stofnana sem börn. AFP

Liðsforingjaefnum á táningsaldri var nauðgað, auk þess sem þau voru neydd til að stunda kynlíf hvert með öðru meðan á þjálfun þeirra stóð. Þetta er meðal þeirra vitnisburða sem áströlsk rannsóknarnefnd á barnaníði innan stofnana hefur hlustað á í dag.

Nefndin, The Royal Commission into Institutional Responses to Child Sexual Abuse, var sett á fót 2013 til að rannsaka barnaníð innan ástralskra stofnana.

Fréttavefur BBC segir liðsforingjaefnin lýsa kynferðislegum árásum, sem voru „grimmilegar og niðurlægjandi“, sem hluta af vígsluathöfnum í hernum. Yfir 100 einstaklingar hafa greint nefndinni frá ofbeldi sem þeir sættu í hernum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og fram á þann níunda.

Nefndin hefur m.a. heyrt af því að liðsforingjaefnin sættu líkamlegri refsingu og þeim var hótað að þau yrðu rekin með skömm ef þau kvörtuðu.

Þúsundir hafa sett sig í samband við nefndina vegna ofbeldis sem þeir sættu innan ástralskra stofnana sem börn, frá því nefndin var sett á fót, og hefur athyglin að stórum hluta beinst að misnotkun kaþólskra presta á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert