Leið eins og „konu sem hefur verið nauðgað“

Salman Kahn í hlutverki sínu í kvikmyndinni Sultan.
Salman Kahn í hlutverki sínu í kvikmyndinni Sultan. mbl.is

Kvennasamtök á Indlandi hafa krafið eina skærustu stjörnu Bollywood, Salman Khan, um afsökunarbeiðni eftir að hann sagði að sér hefði liðið eins og „konu sem hefur verið nauðgað“ við erfiðar aðstæður í tökum á nýjustu mynd sinni.

Samtökin, sem heita á ensku The National Commission for Women, gáfu leikaranum vikufrest til að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum sem hann lét falla á blaðamannafundi um helgina.

Í frétt CNN er haft eftir Khan að eftir að hafa verið við tökur á nýjustu mynd sinni, Sultan, þar sem hann þurfti að vera í glímuhring klukkustundum saman, hafi sér liðið eins og „konu sem hefur verið nauðgað“ að tökum loknum.

 Lalitha Kumaramangalam, yfirmaður kvennasamtakanna, krefst afsökunarbeiðni. Hún segir ummælin lýsandi fyrir þá kvenfyrirlitningu sem einkenni indverskt samfélag.

„Þar sem hann er mjög opinber persóna og vinsæll, sérstaklega þar sem á hann er litið sem fyrirmynd, voru þessi ummæli mjög óheppileg og ábyrgðarlaus,“ segir hún. „Við ætlum ekki að leggja stund á nornaveiðar. Ég vil einungis að hann biðjist afsökunar. Enginn er að skipa honum að krjúpa á kné.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert