Pundið gæti hríðfallið

AFP

Gengi sterlingspundsins gæti náð sínu lægsta gildi gagnvart gengi Bandaríkjadalsins í þrjátíu ár ef Bretar segja skilið við Evrópusambandið. Þetta er mat Mike Ameys, sjóðsstjóra hjá fjármálafyrirtækinu PIMCO.

Hann telur að pundið gæti lækkað niður í 1,30 Bandaríkjadali, ef Bretar ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun að yfirgefa Evrópusambandið, en það stendur nú í 1,47 dölum.

Í samtali við fréttaveitu Reuters segir hann um 60% líkur á því að Bretar verði áfram hluti af Evrópusambandinu. 

Hann benti enn fremur á að úrsögn Breta myndi leiða til þess að Englandsbanki neyddist til að lækka stýrivexti sína. Svigrúm bankans til þess væri hins vegar takmarkað, enda væru vextirnir nú sögulega lágir.

„Við teljum að Englandsbanki myndi lækka vextina ef Brexit verður að veruleika niður í núll prósent, en ekki neðar,“ segir hann.

Hann lítur hins vegar ekki á úrsögn Breta sem kerfislægt vandamál og efast því um að aðrir seðlabankar myndu þurfa að bregðast sérstaklega við Brexit.

Efnahagsástandið í Kína væri helsta hættan sem steðjaði að heimshagkerfinu, ekki Brexit.

Frétt Reuters

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert