Sex börn létu lífið í loftárásum

Frá vettvangi sprengjuárásar í Raqa árið 2014. Mynd úr safni.
Frá vettvangi sprengjuárásar í Raqa árið 2014. Mynd úr safni. AFP

Að minnsta kosti 25 almennir borgarar létu lífið í loftárásum á sýrlensku borgina Raqa, þar af sex börn, seint í gærkvöldi. Tugir eru særðir, sumir alvarlega að sögn The Syrian Observatory for Human Rights. Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á árásunum en Raqa er höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi.

Sýrlandsher ásamt bandamönnum þeirra Rússum hafa gert árásir á borgina ítrekað ásamt bandalagi Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja sem taka þátt í aðgerðum.

Á mánudaginn þurfi Sýrlandsher að hörfa úr Raqa-héraði eftir árásir Ríkis íslams en markmið þeirra sem berjast gegn hryðjuverkasamtökunum er núna að stöðva birgðaleið samtakanna frá landamærum Tyrklands til Raqa. Þær aðgerðir virðast vera á bið en Ríki íslams hefur m.a. notað sjálfsmorðsárásir gegn þeim.

Þá voru gerðar loftárásir á borgina í dag, m.a. á ráðhúsið.

Samtökin Raqa is Being Slaughtered Silently (RBSS) sem eru á móti Ríki íslams og safna saman fréttum úr borginni birtu myndir sem eiga að vera teknar eftir loftárásirnar í gær. Þar má sjá svalir íbúðahúss í rúst og mikinn eld í bifreið.

Samtökin hafa sakað Ríki íslams um að hindra það að almennir borgarar komist úr borginni og notað þá sem mannlega skildi. Þá er erfitt fyrir hina særðu að fá læknishjálp þar sem hryðjuverkamennirnir hafa neytt lækna borgarinnar til þess að vinna fyrir sig.

Ríki íslams náði yfirráðum í Raqa snemma árs 2014 og var stjórnarherinn hrakinn úr héraðinu seinna sama ár.

Rúmlega 280.000 manns hafa látið lífið í stríðinu í Sýrlandi sem hófst árið 2011. Þá hafa milljónir manna þurft að flýja heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert