Þrír grunaðir hryðjuverkamenn handteknir í Tyrklandi

Mennirnir eru sagðir hafa skipulagt árás á réttindagöngu transfólks sem …
Mennirnir eru sagðir hafa skipulagt árás á réttindagöngu transfólks sem haldin var á sunnudag við Taksim-torg í Evrópuhverfinu í Istanbúl. AFP

Lögregluyfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið þrjá menn sem grunaðir eru um að vera liðsmenn Ríkis íslams og sem talið er að hafi ætlað að ráðast á réttindagöngu transfólks um síðustu helgi, að því er yfirvöld í Tyrklandi greindu frá í dag.

Einn mannanna er Tyrki og hinir tveir koma frá Kákasushéraðinu í Rússlandi og voru þeir teknir höndum í rassíu á föstudag og í gær úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald, að sögn Dogan-fréttastofunnar.

Hald var lagt á útbúnað á borð við fullhlaðin sprengjubelti og hnífa, en mennirnir eru sagðir hafa skipulagt árás á réttindagöngu transfólks sem haldin var á sunnudag við Taksim-torg í Evrópuhverfinu í Istanbúl.

Lögregla réðst til atlögu og gerði húsleit í húsum í hverfunum Basaksehir og Pendik eftir að henni hafði borist ábending um málið.

Yfirvöld í Istanbúl stöðvuðu réttindagönguna og hafa einnig bannað réttindagöngu samkynhneigðra sem fara átti fram um næstu helgi. Segja þau ástæðuna vera þá að ekki sé hægt að tryggja öryggi almennings.

Liðsmenn Ríkis íslams hafa í tvígang staðið fyrir árásum á borgina það sem af er þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert