Vilja löggilda starfsstétt pítsugerðarmanna

Thinkstock / Getty Images

Ítalskur öldungadeildarþingmaður hefur lagt fram frumvarp um löggildingu starfsstéttar pítsugerðarmanna. Alls starfa um 100 þúsund Ítalir við að baka pítsur. Með lögunum yrðu þeir skyldaðir til að taka 120 klukkustunda námskeið.

Námskeiðið innihéldi kennslu í hreinlæti, matvælafræði, vinnustofum og tungumálum. Námskeiðið myndi gera starf pítsugerðarmanna viðurkennt sem löggilt starfsheiti í Evrópu.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að komið verði á laggirnar opinberri skrá yfir löggilta pítsugerðarmenn. Til þess að komast á þá skrá þurfa bakararnir að ljúka námskeiðinu og 18 mánaða starfsreynslu.

„Skortur á eftirliti í starfsstéttinni hefur orðið til þess að margir bakarar eru án reynslu og þekkingar,“ segir Enzp Prete, yfirmaður samtaka pítsugerðarmanna, í samtali við The Local.

„Við erum ánægð með að þingmenn vilja búa til opinbera skrá yfir pítsubakara og vernda þannig starfsstétt okkar,“ bætir Prete við.

Þingmaðurinn, sem er úr flokknum Forza Italia, segir að lögin myndu verða til þess að boðið yrði upp á betri pítsur í landinu. „Sem Ítalir berum við ábyrgð matarmenningu okkar. Pítsustaðir eru um helmingur allra veitingastaða í landinu, en við erum að sjá fullt af stöðum bjóða upp á pítsur sem ekki eru gerðar samkvæmt okkar hefðum,“ segir þingmaðurinn í samtali við dagblaðið La Repubblica.

„Sumir staðir búa jafnvel til pítsur úr útrunnu hráefni,“ bætir þingmaðurinn við.

Sjá frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert