Grunuðum lífverði bin Laden sleppt

Guantanamo herfangelsið.
Guantanamo herfangelsið. Ljósmynd/Wikipedia

Jemenanum Abdel Malik Ahmed Abdel Wahab al-Rahabi, sem grunaður er um að hafa verið lífvörður Osama bin Laden, hefur verið sleppt úr haldi úr Guantanamo-herfangelsinu.

Hefur al-Rahabi verið fangi Bandaríkjamanna í 14 ár án þess að ákæra á hendur honum hafi verið lögð fram, en hann var handtekinn í Pakistan í desember 2001 og fluttur til Guantanamo mánuði síðar. Auk þess að hafa verið grunaður um að hafa verið lífvörður bin Laden, var hann einnig grunaður um að hafa skipulagt flugrán 11. september 2001. Al-Rahabi hefur alltaf neitað þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hann.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir al-Rahabi hafa verið fluttan til Svartfjallalands, en stjórnvöld þar í landi segja al-Rahabi hafa sótt þar um hæli og að hann væri ekki í haldi þeirra. Í yfirlýsingu sem svartfellsk stjórnvöld sendu frá sér í gær, segjast þau taka ábyrgð á því að aðalaga hann samfélaginu og koma honum til fjölskyldu sinnar á ný.

Annar Jemeni var fluttur frá Guantanamo til Svartfjallalands í janúar, en að sögn stjórnvalda mun tvímenningunum vera frjálst að flytja til annarra landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert