Interpol biðlar til almennings að segja til smyglara

Hydra-aðgerðin beinist að því að hafa uppi á 180 einstaklingum …
Hydra-aðgerðin beinist að því að hafa uppi á 180 einstaklingum sem eru á flótta undan réttvísinni. AFP

Interpol leitar nú til almennings eftir aðstoð við að hafa uppi af 123 einstaklingum sem grunaðir eru um smygl á fólki víða um heim.  Alþjóðalögreglan sendi ákallið frá höfuðstöðvum Interpol í Lyon í Frakklandi en smyglararnir eru allir á flótta undan réttvísinni.

„Smygl á fólki er alþjóðlegt vandamál og þess vegna er alþjóðlegt samstarf í gegnum aðgerðir á borð við Hydra nauðsynlegt,“ sagði Michael O’Connell, forstjóri aðgerðastuðnings, í yfirlýsingu frá Interpol.

Aðgerðin gengur undir nafninu Hydra og taka lögregluyfirvöld í 44 ríkjum, sem og evrópska lögreglan Europol, þátt í henni. Þegar er búið að handtaka 26 einstaklinga og vitað er hvar 31 til viðbótar dvelur.

Interpol hefur þegar borið kennsl á 11 manns sem eru á lista alþjóðalögreglunnar yfir eftirlýstustu einstaklingana, en athygli lögreglunnar hefur í aðgerðunum beinst að 180 einstaklingum sem eru eftirlýstir í 31 landi.

Eru allir þeir sem búa yfir upplýsingum um hvar einhver smyglaranna kunni að dvelja beðnir um að hafa samband við lögregluna á staðnum, eða þá deild Interpol sem fer með mál þeirra sem eru á flótta undan réttvísinni.

„Net þeirra glæpamanna sem leitað er að hefur lítinn áhuga á öryggi eða velferð þeirra sem nýta sér ólöglega þjónustu þeirra. Fyrir þeim er fólkið bara söluvara eins og við höfum séð hörmuleg dæmi um víða um heim,“ sagði O'Connell.

Yfir 800.000 flóttamenn og hælisleitendur á flótta undan stríði, ofsóknum og efnahagserfiðleikum komu í gegnum Tyrkland til Grikklands  í fyrra. Flestir þeirra héldu áfram leið sinni til Evrópu. Yfir 10.000 manns hafa drukknað í Miðjarðarhafinu síðan 2014, á leið sinni til Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert