Telur að Bretar verði áfram í ESB

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, Nigel Farage, sagði í kvöld að svo virtist sem stuðningsmenn þess að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins hefðu unnið nauman sigur í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í landinu í dag.

Farage lét þessi ummæli falla í samtali við sjónvarpsstöðina Sky samkvæmt frétt AFP. Spáði hann því að yrði þetta niðurstaðan myndi það stórefla flokk hans sem hefur það meginmarkmið að Bretland gangi úr Evrópusambandinu.

„Þetta hefur verið kostuleg kosningabarátta, kjörsókn virðist ætla að vera sérlega mikil og það virðist sem stuðningsmenn áframhaldandi veru í Evrópusambandinu muni rétt merja það,“ sagði Farage. „Breski sjálfstæðisflokkurinn og ég erum hvergi á förum og flokkurinn mun aðeins halda áfram að verða sterkari í framtíðinni.“

Fyrr í dag hafði Farage sagt að hann teldi að stuðningsmenn þess að yfirgefa Evrópusambandið ættu góðan möguleika á að vinna þjóðaratkvæðið. Skoðanakannanir hafa bent til þess að mjótt verði á mununum í kosningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert