Úr einu helvíti í annað

Þau flýja hungursneyð, ofbeldi og yfirgang vígamanna en við tekur lítið betra: Líf á flótta. Þúsundir íraskra fjölskyldna sem flúið hafa borgina Fallujah hafa hvergi höfði sínu að halla og geta ekki aflað sér matar. 

Frétt mbl.is: 20 þúsund börn innlyksa í Fallujah

„Ríkisstjórnin sagði okkur að yfirgefa heimili okkar, svo við gerðum það. Hún lýsti því þannig að við myndum finna himnaríki,“ segir Ayyub Yusef. „Ég sé ekki eftir því að fara því við hefðum dáið þarna. En hér erum við rétt svo lifandi, þetta er í raun annars konar helvíti.“

Yusef, eiginkona hans og tvö börn eru meðal tugþúsunda íbúa borgarinnar sem hafa flúið eftir að hernaðaraðgerðir stjórnarhersins gegn yfirráðum Ríkis íslams hófust.

Yfir 60 þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín síðustu vikur og straumur fólks frá borginni er stöðugur. Mannúðarsamtök, sem reyna að aðstoða flóttafólkið, hafa ekki við. Til þess eru allt of margir á flótta og í mikilli neyð.

Fjölskylda Yusef fór á milli nokkurra flóttamannabúða og fékk ávallt synjun um inngöngu. Þar var allt orðið fullt. Þau fóru svo að Habbaniyah-vatni, þar sem verið var að koma á fót enn einum búðunum.

Þau hafa ekki enn fengið tjald og hafa því þurft að sofa undir berum himni í fleiri nætur. „Foreldrar mínir fengu loks tjald í öðrum búðum svo við munum reyna að komast þangað og sofa í þeirra tjaldi,“ segir Yusef.

Sólin er brennandi heit við vatnið sem var eitt sinn fallegur sumarleyfisstaður. Nú standa allir í þéttum hópum og keppast við að ná tjöldum og tjaldstöngum af bílunum þegar þeir keyra inn á svæðið.

„Við áttum von á því að fá að minnsta kosti skjól yfir nóttina en hér fáum við ekkert. Núna erum við að reyna að búa til eigin tjöld,“ segir Taresh Farhan, sem reynir að búa tjald úr því sem hendi er næst.

Ein ung kona er mjög reið. „Við þurfum að búa við harðstjórn vígamannanna og núna erum við að upplifa annað eins óréttlæti,“ segir hún. „Við höfum verði hér í fimm daga en ekki haft neitt að borða. Ekki einu sinni flösku af vatni. Þessar búðir eru bara eins og annað hér í Írak, ef þú ert ekki vel tengdur þá færðu ekkert.“

Konan segir að engin klósettaðstaða sé fyrir konur. „Við þurfum bara að fara út í eyðimörkina.“

Aðrar búðir eru teknar að myndast annars staðar við vatnið. Þar hefur matvælum verið úthlutað. Flóttafólkið myndaði langar raðir til að verða sér út um smá bita. Þar beið það í sandstorminum.

„Síðustu dagana sem við vorum í Fallujah þá reyttum við gras við göturnar og átum það,“ segir Hamde Bedi, 41 árs, sem er ólétt af sínu áttunda barni.

Íraski forsætisráðherrann, Haider al-Abadi, lýsti yfir sigri um yfirráð í borginni í síðustu viku. En átökin halda áfram, sérstaklega í úthverfum borgarinnar. 

Konur eru margar hverjar eina á flótta með börn sín. Eiginmennirnir eru í haldi öryggissveita stjórnvalda sem vilja leita af sér allan grun um að mennirnir séu ekki stuðningsmenn Ríkis íslams og að villa á sér heimildir. 

Eiginmaður Hamde var í fjóra daga í haldi. Hann losnaði fyrr en margir þar sem Hamde er ólétt. „Við sáum margar fjölskyldur sprengdar í loft upp í vegköntum,“ segir hann um flóttann frá Fallujah. Vegasprengjum hefur víða verið komið fyrir af vígamönnum Ríkis íslams. „Og núna erum við komin hingað í búðirnar, án skjóls og án matar. Við eigum enga peninga en við eigum von á barni.

Ég vona að þetta sé stúlka.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert