Verður kjörsóknin mikil?

AFP

Fréttir eru farnar að berast sem benda til þess að kjörsókn í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi um áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu kunni að verða mjög mikil. Talið var fyrir fram að léleg kjörsókn væri fremur til þess fallin að nýtast þeim sem vilja úr sambandinu. 

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að fréttir hafi borist frá einstökum kjördeildum um að kjörsóknin þar hafi verið á bilinu 70–80% sem er mjög mikið á breskan mælikvarða en til samanburðar var kjörsóknin rúm 66% í þingkosningunum sem fram fóru í Bretlandi á síðasta ári. Ekki liggur þó enn þá fyrir tala um kjörsóknina í Bretlandi öllu.

Skoðanakannanir hafa að undanförnu bent til þess að andstæðar fylkingar væru nær hnífjafnar. Fáir hafa lagt í að spá fyrir um úrslitin. Það sama átti við um niðurstöður síðustu kannana sem birtar voru í morgun. Kjörsókn gæti þó sem fyrr segir haft mikið að segja. Ekki verður um að ræða útgönguspár í kvöld þegar kjörstöðum lokar en búist er við niðurstöðum í fyrramálið.

Haft er eftir einum helsta forystumanni þeirra sem vilja úr Evrópusambandinu, Boris Johnson þingmanni Íhaldsflokksins og fyrrverandi borgarstjóra London, í frétt AFP að ljóst að það stefndi í að mjótt yrði á munum. „Miðað við það sem ég hef heyrt þá er kjörsóknin góð á þeim svæðum þar sem við þurfum á því að halda að hún verði góð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert