Yfir 200 flóttamenn hafa dáið hungurdauða

Um 20.000 manns hafa farist og rúmar tvær milljónir hafa …
Um 20.000 manns hafa farist og rúmar tvær milljónir hafa hrakist frá heimilum sínum frá því að uppreisn Boko Haram hófst fyrir sjö árum. AFP

Tæplega 200 flóttamenn, sem hafa flúið undan hryðjuverkasamtökunum Boko Haram, hafa dáið hungurdauða sl. mánuð í Bama-flóttamannabúðunum í Nígeríu samkvæmt upplýsingum frá samtökunum Læknar án landamæra.

„Hörmulegt neyðarástand“ er að myndast í flóttamannabúðunum þar sem 24.000 manns dvelja. Margir flóttamannanna eru illa farnir og eitt af hverjum fimm börnum þjást af alvarlegum næringarskorti.

Um 20.000 manns hafa farist og rúmar tvær milljónir hafa hrakist frá heimilum sínum frá því að uppreisn Boko Haram hófst fyrir sjö árum.

Nígeríski herinn hefur staðið fyrir umfangsmiklum árásum á hryðjuverkasamtökin en Boko Haram ráðast enn á þorp í norðausturhluta landsins þar sem samtökin eyðileggja bæði heimili og vatnsbrunna íbúa.

Læknar án landamæra hafa eftir íbúum flóttamannabúðanna að um 30 manns deyi í búðunum á degi hverjum vegna hungurs og veikinda en teymi á vegum samtakanna komst í herfylgd í fyrsta skipti í búðirnar sl. þriðjudag. „Við vitum að ástand margra er það slæmt að þeir eru í lífshættu,“ hefur fréttavefur BBC eftir Ghada Hatim, sem stýrir starfi Lækna án landamæra í Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert