Blair sorgmæddur yfir úrslitunum

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, telur úrsögn Breta úr ESB …
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, telur úrsögn Breta úr ESB skapa ýmis vandamál. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segist mjög sorgmæddur yfir því að Bretar hafi ákveðið að segja sig úr Evrópusambandinu. Í viðtali á Sky News segir Blair að þeir Bretar sem kusu að ganga úr sambandinu muni nú komast að því að það sem þeir héldu að væri svar við vandanum sé  það alls ekki.

Spurður hvort ekki sé hætta á að Skotar, sem kusu með afgerandi hætti að þeir vildu vera áfram í ESB, krefjist á ný þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir vilji áfram tilheyra Bretlandi, sagði Blair að svo sé. „Við vöruðum við vandanum í tengslum við Skotland. Það mun vera aukinn þrýstingur á nýja  þjóðaratkvæðagreiðslu þar. Það mun líka myndast þrýstingur frá Norður-Írlandi,“ sagði Blair. En úrslit á Norður-Írlandi voru einnig afgerandi á þá vegu að Norður-Írar vildu tilheyra sambandinu áfram.

Blair sagði vissa fortíðarhyggju einkenna úrslitin og að Bretar sýndu þar ekki sömu framsýni og þeir hefðu gert í Evrópusamstarfinu.

„Það var líka varað við því að það yrðu efnahagslegar afleiðingar og við sjáum á viðbrögðunum nú þegar að það var rétt.“

Blair sagði Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna, og Michael Gove, sem til­heyra þeim armi Íhalds­flokks­ins sem vill segja skilið við ESB og sem börðust ötullega fyrir úrsögn Breta vera, vel gefna og að hann vonist til að þeirra hugur beinist nú að því hvernig hægt sé að sameina Breta á nýjan leik og ná skynsamlegri lausn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert