Brexit: Hvað gerist næst?

AFP

Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær að segja skilið við Evrópusambandið. Við tekur flókið, tveggja ára ferli, sem lýst er í Lissabon-sáttmálanum. Margt er þó á huldu um hvernig standa skuli að úrsögninni, enda eru engin dæmi um að aðildarríki hafi sagt sig úr sambandinu.

Í 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið má finna þær reglur sem gilda þegar til þess kemur að aðildarríki ákveður að ganga úr sambandinu. Eins og áður segir eru engin dæmi í sögunni um að slíkt hafi gerst og hefur því aldrei reynt á umræddar reglur.

Tilkynni fyrst leiðtogaráðinu

Ferlið hefst formlega um leið og aðildarríki sem ætlar að segja sig úr sambandinu hefur tilkynnt leiðtogaráði Evrópusambandsins um úrsögnina. Einn þjóðarleiðtogi frá hverju aðildarríki, svo sem forsætisráðherra, forseti eða kanslari, situr í leiðtogaráðinu. Donald Tusk er forseti þess.

Ekki kemur fram í ákvæðinu hvenær tilkynna skuli um ákvörðunina, þannig að það er óljóst hvenær Bretar geta hafið ferlið með formlegum hætti. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, gaf þó skýrlega til kynna á blaðamannafundi í morgun að það yrði í verkahring nýs forsætisráðherra að virkja 50. greinina og hefja samningaviðræður við Evrópusambandið.

Cameron sagði að nýr forsætisráðherra myndi taka til starfa í síðasta lagi fyrir landsfund breska Íhaldsflokksins í nóvember.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundinum í morgun.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundinum í morgun. AFP

Samningaviðræður næst á dagskrá

Eftir að leiðtogaráðinu hefur verið tilkynnt um ákvörðunina, þá þurfa Bretar og Evrópusambandið að ná samkomulagi um hvernig standa skuli að úrsögninni. Og eins hvernig framtíðartengslum Breta við Evrópusambandið verði háttað. Til dæmis þykir líklegt að Bretar leitist eftir því að gera viðskipta- eða fríverslunarsamning við sambandið, enda eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bresk fyrirtæki.

Ráðherraráðið mun leiða samningaviðræðurnar fyrir hönd Evrópusambandsins, en þó setur leiðtogaráðið ákveðnar reglur til viðmiðunar sem eiga að liggja viðræðunum til grundvallar. Nýr forsætisráðherra Breta, hver sem það verður, mun hins vegar leiða viðræðurnar fyrir hönd Breta.

Stjórnmálaskýrendur telja líklegast að Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna og einn helsti talsmaður þess að Bretar yfirgefi Evrópusambandið, muni taka við embættinu af Cameron.

Meðan á ferlinu stendur munu lög og reglur Evrópusambandsins enn gilda í Bretlandi, eins og Donald Tusk áréttaði í morgun

Ekki er gert ráð fyrir að fulltrúar Bretlands í leiðtogaráðinu taki þátt í samningaviðræðunum.

Líklegt þykir að Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna, verði næsti …
Líklegt þykir að Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna, verði næsti forsætisráðherra Bretlands. AFP

Samþykki löggjafarstofnana áskilið

Þegar Bretar og Evrópusambandið hafa náð samkomulagi um hvernig standa skuli að úrsögninni verða löggjafastofnanir sambandsins, Evrópuþingið og Ráðherraráðið, að samþykkja skilmálana í atkvæðagreiðslu.

Yfir 700 manns sitja í Evrópuþinginu, en þingið þyrfti að samþykkja skilmála úrsagnarinnar með meirihluta atkvæða. Ekki er ljóst hvort breskir þingmenn, sem sitja á Evrópuþinginu, megi taka þátt í atkvæðagreiðslunni, að því er segir í frétt New York Times.

Ráðherraráðið samanstendur af mörgum undirráðum sem fjalla hvert um sitt málefni og eru setin af viðkomandi ráðherrum allra aðildarríkjanna. Alls myndu 20 af 27 ráðherrum (breski ráðherrann er undanskilinn) þurfa að samþykkja skilmálana.

Í 50. greininni er ekkert minnst á það hvort þing þess aðildarríkis sem hyggst yfirgefa sambandið, breska þingið í þessu tilviki, þurfi jafnframt að leggja blessun sína yfir samkomulagið. Þó kemur fram í minnisblaði sem unnið var fyrir neðri deild breska þingsins að þingið verði að kjósa um skilmálana áður en þeir taka gildi. Samþykki þingsins er því áskilið.

Stuðningsmenn úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu fagna sigrinum í nótt.
Stuðningsmenn úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu fagna sigrinum í nótt. AFP

Tveggja ára frestur

Úrsagnarferlið, sem hér hefur verið lýst, má ekki taka lengur en tvö ár. Evrópusambandið og Bretar hafa með öðrum orðum tvö ár til þess að ná samkomulagi um hvernig standa skuli að úrsögn Breta úr sambandinu. 

Ljóst er að tíminn er knappur, en þó má geta þess að mögulegt er að framlengja þennan frest, en þá aðeins með einróma samþykki leiðtogaráðsins.

En jafnvel þótt fulltrúar Evrópusambandsins og breskra stjórnvalda ná ekki samkomulagi um skilmála úrsagnarinnar innan tiltekins tíma – tveggja ára frestsins – þá verða Bretar samt sem áður ekki aðilar að Evrópusambandinu að þeim tíma liðnum.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert