Ófrægðu Tyrki í kosningabaráttunni

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands. AFP

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir að Evrópusambandið verði nú að endurskoða vandlega pólitíska sýn sína eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi í gær.

„Evrópusambandið ætti að lesa mjög vandlega í þróunina og endurmeta sýn sína til framtíðar,“ sagði hann í sjónvarpsávarpi til Tyrkja í dag.

Ömer Celike, Evrópumálaráðherra Tyrklands, vísaði á bug getgátum um að útganga Breta úr Evrópusambandinu myndi hafa slæm áhrif á viðræður Tyrkja við Evrópusambandið um aðild landsins að sambandinu. Bretar hafa verið helstu stuðningsmenn aðildar Tyrkja.

Hann sagðist í sjónvarpsávarpi reikna með því að Evrópusambandið yrði nú „raunsærra“ samband en áður. „Það verða fleiri tækifæri og möguleikar fyrir Tyrki. Hvað sem gerist næst, þá verður það betra fyrir Tyrki,“ sagði hann.

Tyrkneski stjórnarandstöðuþingmaðurinn Öztürk Yilmaz gagnrýndi í morgun harðlega báðar fylkingar í Bretlandi og sagði að þær hefðu reynt að ófrægja Tyrki í kosningabaráttunni.

Þeir sem börðust fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu sögðu að Tyrkir myndu streyma til landsins. Margir þeirra væru stórhættulegir glæpamenn. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og einn helsti talsmaður áframhaldandi aðildar, hafi hins vegar gefið til kynna að aðild Tyrkja að sambandinu væri ekki á borðinu. Tyrkir myndu ekki ganga í sambandið fyrr en árið 3000.

„Í gegnum alla kosningabaráttuna notuðu þeir sem börðust fyrir útgöngu og þeir sem börðust fyrir áframhaldandi veru Tyrki á ógeðfelldan hátt. Þetta var ógeðsleg barátta. Þeir gerðu Tyrki að blóraböggli,“ sagði hann. Tyrkjum hafi fundist þetta afar óþægilegt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert