Sviss setur upp neyðarlínu vegna útgöngu Breta

Yfirvöld í Sviss hafa áður sagt að þau búist við …
Yfirvöld í Sviss hafa áður sagt að þau búist við auknum fjárfestingum fælinna fjárfesta í svissneskum fyrirtækjum ef Bretar segi sig úr ESB. AFP

Yfirvöld í Sviss hafa sett á fót sérstaka neyðarlínu sem þeir sem hafa áhyggjur af afleiðingum þess að Bretar segi sig úr Evrópusambandinu geta leitað til með spurningar sínar.

Svissneska utanríkisráðuneytið tilkynnti nú í morgun að hægt sé að hringja í neyðarlínuna allan sólarhringinn og  alla daga vikunnar en neyðarlínan var virkjuð aðeins nokkrum tímum eftir að ljóst var að Bretar hefðu kosið að yfirgefa ESB.

„Þótt kjósendur í Bretlandi hafi kosið að ganga úr Evrópusambandinu verða engar breytingar samstundis á þeim reglum sem snúa að svissneskum borgurum og fyrirtækjum og ekkert mun breytast strax,“ sagði í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

Mikil spurn er þó eftir upplýsingum frá Svisslendingum bæði heimafyrir og þeim sem búa erlendis og er að finna lista yfir algengustu spurningar í tengslum við málið á vefsíðu svissneska sendiráðsins í London og Brussel.

Ein helstu áhrif útgöngu Breta úr ESB á Sviss snúi að gjaldeyrismálum, en yfirvöld í Sviss hafa áður sagt að þau búist við auknum fjárfestingum í  svissneskum fyrirtækjum af hendi fælinna fjárfesta ef Bretar segi sig úr ESB.

Svissneski frankinn hefur lengi verið talinn öruggur gjaldmiðill og tók gengi hans að hækka þegar skoðanakannanir bentu til þess að Bretar myndu segja sig úr ESB.

Svisslendingar höfnuðu því í þjóðaratkvæðagreiðslu 1992 að gerast aðildarríki ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert