„Þetta er stórkostlegt“

Trump var hress í Skotlandi í morgun.
Trump var hress í Skotlandi í morgun. AFP

Donald Trump fagnaði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um aðild þeirra að Evrópusambandinu í dag þar sem Bretar kusu að ganga úr sambandinu. Trump er nú staddur í Skotlandi sem er hans fyrsta utanlandsferð síðan hann varð sennilegur frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember.

„Mér finnst þetta frábært. Þetta er stórkostlegt,“ sagði hann í samtali við blaðamenn í morgun skömmu eftir að hann kom til Skotlands.

Trump hafði tjáð sig um atkvæðagreiðsluna í bandarískum fjölmiðlum og ítrekaði þá afstöðu sína að Bretar ættu að ganga úr sambandinu.

Trump mætti í þyrlu til þess að opna golfvöll í hans eigu í Turnberry þar sem mátti sjá stóran skoskan fána við hún. Þar mátti þó líka sjá mótmælendur sem létu í sér heyra gegn heimsókn hins umdeilda Trump.

Heimsókn Trump er stutt, eða aðeins til þess að opna formlega golfvöllinn en hann verður farinn aftur til Bandaríkjanna á morgun.

Yfirlýsingar Trump gegn innflytjendum og að byggja ætti vegg milli Mexíkó og Bandaríkjanna hafa vakið hörð viðbrögð í Evrópu. Þá kallaði fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hugmynd Trump um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna, „heimskulega“ og „ranga“.

Auðjöfurinn mætti í þyrlu á golfvöllinn.
Auðjöfurinn mætti í þyrlu á golfvöllinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert