Yfirgefi ESB sem allra fyrst

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Helstu leiðtogar Evrópusambandsins segjast eiga von á því að Bretar reyni að yfirgefa sambandið sem allra fyrst, sama hve sársaukafullt það verði. Frekari samningaviðræður um tilslakanir til handa Bretum, meðal annars um meiri sjálfsstjórn, komi ekki til greina.

Forsetar leiðtogaráðs Evrópusambandsins, framkvæmdastjórnar þess og Evrópuþingsins – Donald Tusk, Jean-Claude Juncker og Martin Schulz – sem og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sem fer með formennsku í ráði Evrópusambandsins, sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í morgun að allar tafir á útgöngu Breta myndu auka óvissu að nauðsynjalausu.

Frétt mbl.is: Brexit: Hvað gerist næst?

Þeir héldu neyðarfund í Brussel, höfuðborg Belgíu, í morgun eftir að í ljós kom að meirihluti Breta hafði samþykkt að segja skilið við Evrópusambandið.

Þeir sögðust harma ákvörðun bresku þjóðarinnar, en myndu að sjálfsögðu virða hana.

„Þetta er fordæmislaus staða, en við erum sameinuð í svari okkar,“ sögðu þeir.

Þeir bentu á að Bretar yrðu áfram aðilar að Evrópusambandinu þar til þeir hefðu náð samkomulagi við sambandið um skilmála úrsagnarinnar. Bretar hafa tvö ár til þess.

Leiðtogarnir ættu þó von á því að Bretar myndu sem allra fyrst virkja 50. gr. Lissabon-sáttmálans, sem kveður á um þær regl­ur sem gilda þegar til þess kem­ur að aðild­ar­ríki ákveður að ganga úr sam­band­inu.

Í kjölfarið gætu samningaviðræður hafist.

Eins og kunnugt er náði Evrópusambandið samkomulagi við David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í febrúar á þessu ári um að Bretar fengju sérstaka stöðu innan sambandsins. Samkomulagið kvað á um ýmsar tilslakanir til handa Bretum um meiri sjálfsstjórn í hinum ýmsu málum.

Fjórmenningarnir sögðu í yfirlýsingunni að samkomulagið væri, í ljósi nýjustu tíðinda, ógilt og að ekki væri hægt að semja upp á nýtt.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert