Bresku blöðin um Brexit

AFP

Bresku dagblöðin fjalla með misjöfnum hætti í dag um þá ákvörðun breskra kjósenda í þjóðaratkvæði á fimmtudaginn að segja skilið við Evrópusambandið. Skiptar skoðanir eru á þeirri ákvörðun á meðal blaðanna rétt eins og á meðal bresku þjóðarinnar sem skiptist í tvennt í afstöðunni til málsins. Þeir sem vildu út voru þó í meirihluta í kosningunum.

„Hneigðu þig Bretland,“ segir á forsíðu Daily Mail sem studdi úrsögn úr Evrópusambandinu. „Þetta var dagurinn þegar hinn þögli hluti bresku þjóðarinnar reis upp gegn horkafullri stjórnmálastéttinni, sem er í engu sambandi við almenning, og fyrirlitlegri yfirstéttinni í Brussel.“ Fram kemur í leiðara blaðsins að Bretar hafi fullir sjálfstrausts sent yfirstéttinni skýr skilaboð um að þeir væru búnir að fá nóg af því að vera hunsaðir vegna mála sem þeir hefðu sterkar skoðanir á.

Daily Express, sem einnig studdi úrsögn, skartar fyrirsögninni: „Við erum á leið út úr Evrópusambandinu.“ Niðurstaða þjóðaratkvæðisins er sögð „stórkostlegur sigur“. Daily Telegraph, sem að sama skapi studdi úrsögn, talar um endurfæðingu Bretlands og að 23. júní verði minnst um aldur og ævi fyrir að hafa verið dagurinn þegar breskir kjósendur hafi endurheimt völdin yfir eigin landi.

Times, sem studdi áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, talar hins vegar um „Brexit-jarðskjálfta“ og Daily Mirror sem einnig vildi Bretland áfram í sambandinu spyr einfaldlega: „Hvað í ósköpunum gerist núna?“ Guardian, sem hafði sömu afstöðu, segir einfaldlega á forsíðunni: „Yfir og út“ yfir mynd af David Cameron forsætisráðherra. 

The Sun, sem studdi úrsögn úr Evrópusambandinu, birtir einnig mynd af Cameron og leggur áherslu á þá ákvörðun hans að hætta sem forsætisráðherra. Fyrirsögnin á forsíðunni er: „Hvers vegna ætti ég að sjá um alla erfiðisvinnuna?“ Ummælin er Cameron sagður hafa látið falla við aðstoðarmann sinn og átt við að það væri þeirra sem hefðu barist fyrir úrsögn að sjá um að framfylgja niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert