Hættir í framkvæmdastjórninni

Jonathan Hill.
Jonathan Hill. AFP

Bretinn Jonathan Hill, sem sæti á í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hyggst láta af embætti í kjölfar þjóðaratkvæðisins í Bretlandi á fimmtudaginn þar sem samþykkt var að segja skilið við sambandið. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Haft er eftir Hill að niðurstaða þjóðaratkvæðisins væri honum mikil vonbrigði en þetta væri búið og gert. Fram undan væri nýtt fyrirkomulag og hann teldi ekki rétt að sitja áfram í framkvæmdastjórninni eins og ekkert hefði í skorist.

Kallaði Hill, sem áður sat í lávarðadeild breska þingsins, eftir því að eftirmaður hans yrði valinn sem fyrst. Hann var tilnefndur í framkvæmdastjórnina af David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, en Cameron hyggst láta af embætti í október.

„Líkt og margir aðrir, bæði hér [í Brussel] og í Bretlandi, eru úrslit þjóðaratkvæðisins mér mikil vonbrigði. Ég vildi að þetta færi á annan veg. En breska þjóðin hefur tekið aðra ákvörðun og þannig virkar lýðræðið.“

Þetta væri búið og gert og verkefnið fram undan væri að tryggja að nýtt samband Bretlands við Evrópusambandið yrði sem farsælast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert