Minnst 14 létust í árás á hótel

Að minnsta kosti 14 eru látnir eftir árás íslömsku hryðjuverkasamtakanna …
Að minnsta kosti 14 eru látnir eftir árás íslömsku hryðjuverkasamtakanna al-Shabab á hótel í Mogadishu. Árásin hófst með sjálfsmorðssprengju í bíl við hlið hótelsins. AFP

Að minnsta kosti 14 eru látnir eftir árás íslömsku hryðju­verka­sam­takanna al-Shabab á Naso-Hablod-hótelið í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. BBC hefur þetta eftir lögreglunni í Mogadishu. Hótelið er vinsælt meðal stjórnmálamanna og ferðamanna.

Að sögn yfirvalda yfirtóku öryggissveitir hótelið eftir að árásarmennirnir, sem beittu skotvopnum, höfðu ráðist til atlögu. Árásin hófst með þeim hætti að einn árásarmannanna sprengdi sig í loft upp í bíl við hlið hótelsins. Í kjölfarið réðust aðrir menn inn á hótelið og skutu á gesti af handahófi. Skotbardagi braust út milli árásarmannanna, sem voru að minnsta kosti fjórir, og öryggissveitanna. Meðal hinna látnu eru öryggisverðir, óbreyttir borgarar og nokkrir af árásarmönnunum. 

„Þeir skutu alla sem þeir sáu. Ég náði að flýja út um bakdyr,“ sagði Ali Mohamud, einn hótelgesta, í samtali við fréttaritara AP.

Liðsmenn Al-Shabab voru hrakt­ir frá borg­inni árið 2011 en hafa þó reglu­lega gert árás­ir á ýmis borg­ar­mann­virki síðan þá, í herferð sinni gegn ríkisstjórninni sem er studd af vestrænum ríkjum. 

Fyrr í þessum mánuði voru að minnsta kosti tíu menn drepnir og 50 slösuðust þegar liðsmenn al-Shabab gerðu árás á annað hótel í borginni. Sprengj­an var ein sú stærsta sem hef­ur verið sprengd í borg­inni. 

Hótelgestir og aðrir sem staddir voru í nágrenninu reyndu að …
Hótelgestir og aðrir sem staddir voru í nágrenninu reyndu að leita skjóls frá árásarmönnunum. AFP
Skotbardagi braust út milli árásarmannanna, sem voru að minnsta kosti …
Skotbardagi braust út milli árásarmannanna, sem voru að minnsta kosti fjórir, og öryggissveita yfirvalda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert