40.000 íbúar Vatíkansins skrifa undir

Nefnd á vegum breska þingsins rannsakar nú undirskriftasöfnun um áframhaldandi …
Nefnd á vegum breska þingsins rannsakar nú undirskriftasöfnun um áframhaldandi veru Breta í ESB. AFP

Undirskriftasöfnun um aðra atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr ESB er nú rannsökuð af undirskriftanefnd neðri deildar breska þingsins. Greint er frá þessu á vef The Guardian.

Yfir þrjár milljónir manna hafa skrifað undir söfnunina, en staðfest hefur verið að 77.000 undirskriftir hafi verið teknar af listanum, þar sem þær voru falsaðar. Undirskriftanefndin greinir frá því á Twitter-reikningi sínum að fylgst verði með grunsamlegri þróun á listanum, en breska þingið verður að taka fyrir allar undirskriftasafnanir sem ná 100.000 undirskriftum.

Einungis breskir ríkisborgarar mega skrifa nafn sitt á listann, en eina auðkenningin á vefsíðunni sem hýsir söfnunina er í formi reita þar sem þeir sem rita nafn sitt haka við hvort þeir séu breskir ríkisborgarar eða búsettir í Bretlandi. Skrá þarf niður póstnúmer en ekki þarf að skrá heimilisfang eða auðkenna sig á nokkurn annan hátt.

Gögn sýna að undirskriftirnar hafa borist víða að, m.a. frá Íslandi. Vatíkanið hefur líka sína fulltrúa á listanum, fleiri en 39.000 talsins, en íbúar þess eru ekki nema rétt um 800.

Helen Jones, formaður undirskriftanefndarinnar, segir að þeir sem falsi undirskriftir, grafi undan málstað sem þeir séu að reyna að styðja og að málið verði rannsakað. „Það er ljóst að þessar undirskriftir eru mjög mikilvægar fjölda fólks. Undirskriftanefndin mun ræða söfnunina á fundi í næstu viku og ákvarða hvort hún verði tekin til umræðu.“

Það er kaldhæðnislegt að undirskriftasöfnunin var sett á fót af William Oliver Healy, sem barðist gegn áframhaldandi veru Breta innan ESB, en það gerði hann þegar útlit var fyrir að niðurstaða kosninganna yrði önnur en raunin varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert