Bretar hefji úrsagnarferli í vikunni

Bretland er á leið úr Evrópusambandinu.
Bretland er á leið úr Evrópusambandinu. AFP

Evrópusambandið vill að Bretar hefji úrsagnarferli úr Evrópusambandinu í þessari viku. Þetta kom fram í máli Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins, í samtali við þýska dagblaðið Bild am Sonntag. 

Schulz sagði þar frekara óvissuástand vegna yfirvofandi úrsagnar Breta leiða til óöryggis og ógna störfum í Evrópu. „Leiðtogafundurinn á þriðjudaginn er akkúrat rétti tíminn,“ sagði Schulz um það hvenær Bretar ættu að hefja úrsagnarferlið og bætti því við að biðin væri aðeins Íhaldsflokki Bretlands í hag.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins.
Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins. AFP

Leiðtogafundur Evrópusambandsríkjanna verður haldinn á þriðjudag og miðvikudag til þess að ræða stöðuna sem komin er upp eftir að meirihluti Breta kaus með úrsögn úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudaginn var.

Fjórir stærstu hóparnir á Evrópuþinginu skiluðu af sér drögum að tillögum fyrir úrsögn Breta þar sem þeir kölluðu eftir því að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ætti að leyfa „Brexit-boltanum að rúlla af stað“ til þess að koma í veg fyrir frekari skaða vegna óvissuástandsins og til þess að varðveita samheldni Evrópusambandsríkjanna.

Eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi var kunngerð lýsti David Cameron því yfir að hann hygðist segja af sér sem forsætisráðherra fyrir 1. október næstkomandi. Það yrði í höndum arftaka hans að semja um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu.

Fyrsta skrefið við úrsögn Breta er að virkja fimmtugasta ákvæði Lissabon-sáttmálans en það verður í fyrsta sinn sem ákvæðið er virkjað.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert