Merkel róar öldurnar

Angela Merkel ræðir við blaðamenn á fundi í dag.
Angela Merkel ræðir við blaðamenn á fundi í dag. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, reyndi í gær að draga úr þeim þrýstingi sem Bretar hafa orðið fyrir frá ríkjum og leiðtogum Evrópusambandsins um að hefja sem fyrst aðskilnaðarferlið að bandalaginu. Hún segir enga þörf á að vera sérstaklega „illgjarn á nokkurn hátt“ í þeim samningaviðræðum sem nú fara í hönd milli Bretlands og Evrópusambandsins. 

„Hreinskilnislega á þetta ekki að taka heila eilífð, það er rétt, en ég myndi ekki núna berjast fyrir þröngum tímaramma,“ sagði Merkel á blaðamannafundi í gær, laugardag. 

Hún segir mikilvægt að samningaviðræðurnar fari fram í yfirveguðu andrúmslofti og verði á faglegum nótum. 

Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, hefur sagt að samningaviðræðurnar ættu að hefjast sem allra fyrst. Það sagði hann í kjölfar fundar leiðtoga stofnríkja ESB. 

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að hann muni hætta sem forsætisráðherra í október. Þá muni eftirmaður hans taka við og hefja viðræðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert