Páfi vill fyrirgefningu samkynhneigðra

Frans páfi ávarpar fréttamenn í flugvél sinni.
Frans páfi ávarpar fréttamenn í flugvél sinni. AFP

Frans páfi segir að kristnir menn og kaþólska kirkjan eigi að leita fyrirgefningar frá samkynhneigðum fyrir þá meðferð sem þeir hafa mátt þola. The Guardian greinir frá þessu.

Páfinn lét þessi orð falla í samtali við fréttamenn um borð í flugvél sinni á leið frá Armeníu til Rómar á sunnudag. Var hann spurður út í ummæli þýsks kardínála, sem hefur sagt kirkjuna þurfa að biðja samkynhneigða afsökunar.

Samkvæmt kirkjunni er samkynhneigð ekki synd, en samkynhneigðar athafnir eru það á hinn bóginn. „Spurningin er: Ef manneskja sem er í þessu ástandi er góðhjörtuð og leitar til Guðs, hver erum við þá að dæma hana?“

Sagði páfinn að samkynhneigðum ættu ekki að vera mismunað og að kirkjan ætti ekki aðeins að biðja samkynhneigða afsökunar, heldur einnig konur og börn sem hafa verið misnotuð til vinnu.

Þá sagði hann kirkjuna verða að biðjast fyrirgefningar á því að hafa „lagt blessun sína yfir svo mörg vopn“, sem hann útskýrði ekki nánar, en talið er að hann hafi þar vísað til kirkjunnar manna sem hafa stutt stríðsrekstur.

Frans hefur þótt frjálslyndur í páfatíð sinni. Sagðist hann hafa heyrt af embættismönnum innan kirkjunnar sem leitað hafi til forvera síns, Benedikts, og kvartað yfir frjálslyndi sínu. Benedikt hafi aftur á móti vísað þeim burt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert