Skotin eftir að hafa skotið dætur sínar

Lögreglumenn í Texas.
Lögreglumenn í Texas. AFP

Kona í Texas skaut tvær dætur sínar til bana áður en lögreglan kom á vettvang. Lögreglan skaut þá móðurina til bana.

Í frétt CNN um málið segir að konan hafi verið 42 ára. Hún hafi skotið dætur sínar, 22 og 17 ára gamlar, til bana í bænum Fulshear vestur af Houston.

Nágranni er sagður hafa hringt á lögregluna og þegar hún mætti á staðinn neitaði konan að leggja frá sér byssuna. Lögreglumennirnir skutu þá konuna til bana.

Dæturnar lágu í blóði sínu úti á götu. Önnur þeirra var úrskurðuð látin á staðnum en sú yngri var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést.

Lögreglan rannsakar nú tildrög árásarinnar. Hún er sögð hafa hafist inni á heimili fjölskyldunnar en að stúlkurnar hafi svo flúið út á götu.

Í frétt CNN segir að lögreglan hafi áður þurft að hafa afskipti af heimilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert