Þráteflið á Spáni óbreytt eftir kosningar

Mariano Rajoy, starfandi forsætisráðherra og leiðtogi Lýðflokksins, veifar til stuðningsmanna …
Mariano Rajoy, starfandi forsætisráðherra og leiðtogi Lýðflokksins, veifar til stuðningsmanna sinna í gærkvöldi. AFP

Lýðflokkur Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar fór með sigur af hólmi í þingkosningunum sem fóru fram í landinu í gær. Rajoy segir það gefa flokknum rétt á að halda áfram um stjórnartaumana. Niðurstaðan hróflar þó lítið við þráteflinu sem hefur verið uppi frá því að kosið var í desember.

Hvorki gekk né rak að mynda nýja ríkisstjórn á Spáni eftir þingkosningar sem fóru fram í lok síðasta árs. Því þurfti að boða til nýrra kosninga og hlaut íhaldssami flokkur Rajoy flest þingsæti líkt og áður, án þess þó að ná hreinum meirihluta. Flokkurinn bætti við sig fimmtán þingmönnum frá því í desember. Sósíalistar hlutu næstflest þingsæti en töpuðu lítillega líkt og hinir flokkarnir.

Nýju flokkarnir Podemos og Ciudadanos hlutu 71 og 32 þingsæti á spænska þinginu þar sem 350 þingmenn sitja.

„Við sigruðum í kosningunum, við krefjumst réttarins til að stjórna,“ sagði Rajoy við stuðningsmenn sína í Madrid eftir að sigurinn lá ljós fyrir.

Þrátt fyrir þau orð er verkefni spænsku stjórnmálaflokkanna óbreytt frá því sem verið hefur undanfarið hálft ár: að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert