Útilokar óformlegar viðræður við Breta

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að viðræður á milli Breta og Evrópusambandsins um skilmála úrsagnar Breta úr sambandinu geti ekki hafist fyrr en Bretar tilkynni leiðtogaráði sambandsins formlega um úrsögnina.

Engar óformlegar viðræður verði heldur teknar upp við Breta.

Hún segir að úrsagnarferlið, eins og því er lýst í 50. gr. Lissabonsáttmálans, þurfi fyrst að hefjast með formlegum hætti. Í kjölfarið geti leiðtogar Breta og Evrópusambandsins sest við samningsborðið.

Merkel sagðist í dag viðurkenna að Bretar þyrftu tíma til þess að taka næsta skref, en það ætti ekki að taka „langan tíma“.

Merkel mun funda um útgöngu Breta með forseta Frakklands og forsætisráðherra Ítalíu í Berlín síðar í dag.

Eins og kunnugt er samþykktu Bretar með 52% atkvæða að segja skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta fimmtudag.

„Raunveruleikinn er sé að meirihluti Breta samþykkti að yfirgefa sambandið,“ sagði Merkel við fjölmiðla fyrr í dag. Hún biði nú eftir tilkynningu frá breskum yfirvöldum.

„Verkefnið mitt er að taka tilkynninguna til skoðunar þegar hún berst. Við ættum ekki að bíða lengi. Ég geri mér grein fyrir að Bretar muni hugsa hlutina í einhvern tíma,“ sagði Merkel og bætti við að samningaviðræður, hvort sem formlegar eða óformlegar, gætu ekki hafist fyrr en 50. greinin hefði verið virkjuð.

Hún áréttaði að öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins þyrftu nú að vinna saman.  

Um leið og Bretar hafa virkjað 50. greinina, og hafið þannig úrsagnarferlið með formlegum hætti, hafa þeir tvö ár til þess að komast að samkomulagi við leiðtoga Evrópusambandsins um skilmála útgöngunnar. Eftirmaður David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun leiða viðræðurnar fyrir hönd Breta, en Cameron hyggst stíga til hliðar í síðasta lagi í október.

Þrýstihópur þeirra sem börðust fyrir útgöngu Breta úr ESB hefur sagt að engin þörf sé á því að Bretar yfirgefi sambandið í miklum flýti.

Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, sagði í morgun að Bretar ættu að yfirgefa sambandið fljótt. Leiðtogar Evrópusambandsins í Brussel hafa jafnframt gefið það sama í skyn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert