Verslunarmiðstöð rýmd í Nice

Hermenn á vakt í frönsku borginni Nice.
Hermenn á vakt í frönsku borginni Nice. AFP

Franskir lögreglumenn hafa rýmt stóra verslunarmiðstöð í Nice, skammt frá Stade de Nice þar sem landsleikur Íslands og Englands fer fram á EM í kvöld.

Þetta kemur fram á breska vefnum Daily Star, en þar segir að vopnaðir franskir lögreglumenn hafi verið á staðnum.

Haft er eftir sjónarvottum að þetta eigi sér stað í Lingostière-verslunarmiðstöðinni í frönsku borginni. Þetta er stærsta verslunarmiðstöð borgarinnar og er hún tæpa þrjá km frá vellinum þar sem leikurinn fer fram. 

Einn sjónarvottur segir að lögreglan sé með mikinn viðbúnað vegna grunsamlegs pakka sem fannst á staðnum. Aðrir sjónarvottar segja að sjúkraflutningamenn hafi verið sendir á vettvang. 

Franskur fréttavefur segir að starfsmaður í verslun hafi látið öryggisvörð vita af grunsamlegri tösku eða poka sem fannst í húsinu um hádegisbil í dag. Lögreglu var svo gert viðvart og alls þurftu um 2.000 manns að yfirgefa verslunarmiðstöðina. 

Þegar pokinn var skoðaður fundustu tveir gashólkar og kveikjubúnaður, að því er segir í frétt France TV.

Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert