15 milljarða dollara bætur VW

Volkswagen hefur boðið bandarískum eigendum dísilbíla bætur og að kaupa …
Volkswagen hefur boðið bandarískum eigendum dísilbíla bætur og að kaupa aftur bíla þeirra. AFP

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen er sagður hafa náð samkomulagi við bandaríska eigendur bifreiða hans um greiðslu 15 milljarða dollara í skaðabætur vegna blekkinga í útblástursprófum. Samkomulagið felur í sér að fyrirtækið geri við eða kaupi aftur bílana og greiði miskabætur.

Dómari á enn eftir að leggja blessun sína yfir sáttina en hún yrði sú stærsta vegna bílaframleiðanda í sögu Bandaríkjanna. Volkswagen þarf samkvæmt því að gera við eða kaupa aftur 475.000 bíla með tveggja lítra dísilvél og greiða eigendunum allt að tíu þúsund dollara í bætur hverjum. Bíleigendurnir hafa engu að síður rétt til að hafna boði Volkswagen og stefna fyrirtækinu sjálfir.

Hluti fjárhæðar samkomulagsins á að renna til aðgerða til að vega á móti útblæstri dísilbílanna og til rannsókna á grænni orku og umhverfisvænum bílum.

Uppi varð fótur og fit í fyrra þegar Volkswagen varð uppvíst að því að hafa komið fyrir sérstökum hugbúnaði í bílum sínum til að svindla á útblástursprófum. Sumar tegundir bíla framleiðandans losa allt að fjörutíu sinnum meira af mengandi efnum en leyfilegt er.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert