„Ég er enn á lífi“

Elísabet II Englandsdrottning.
Elísabet II Englandsdrottning. AFP

„Ég er enn á lífi,“ sagði Elísabet Bretlandsdrottning kímin í bragði á mánudag er hún var spurð um heilsu sína, en þetta var í fyrsta sinn sem drottningin tjáir sig við almenning eftir að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu. Fréttastofan AFP greinir frá þessu.

Dagarnir í kjölfar Brexit-þjóðaratkvaðagreiðslunnar hafa verið dramatískir fyrir Bretland en meðal annars hefur forsætisráðherra sagt af sér, virði pundsins er í þrjátíu ára lágmarki og England tapaði eftirminnilega fyrir Íslandi í leik liðanna á Evrópumótinu í knattspyrnu í gær.

Drottningin fór í tveggja daga ferð til Norður-Írlands og átti fund með nokkrum norður-írskum leiðtogum, þeirra á meðal Martin McGuinness, sem gegndi fyrstur hlutverki fremsta ráðherra Íra gagnvart breska konungsveldinu.

McGuinness spurði drottninguna hvernig hún hefði það er hann heilsaði henni fyrir framan myndavélar er þau áttu fund í sjónvarpssal. „Ég er enn þá á lífi alla vega,“ svaraði drottningin hlæjandi. „Við höfum verið nokkuð upptekin. Það hefur verið margt um að vera,“ bætti hún við. 

Það var óljóst hvort athugasemd hennar var skírskotun til pólitísks umróts í landinu eða þess að hún fagnaði nýlega afmæli sínu í tvígang. Drottningin varð níræð á árinu en að breskri hefð er haldið tvisvar sinnum upp á afmæli drottningar. 

Drottningin hefur ekki gefið út neina yfirlýsingu varðandi val Breta um að yfirgefa Evrópusambandið en kjósendur í Skotlandi og Norður-Írlandi studdu áframhaldandi veru í sambandinu. 

Eftir að hafa fundað fyrir luktum dyrum með drottningunni, neitaði McGuinness að ræða hvort þau drottningin hefðu rætt þjóðaratkvæðagreiðsluna. „Við ræddum ýmislegt, en ekkert sem ég mun greina ykkur frá,“ sagði McGuinnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert