Sakar Evrópuþingmenn um dónaskap

Nigel Farage ræðir við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB.
Nigel Farage ræðir við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins og einn helsti talsmaður þess að Bretar yfirgefi Evrópusambandið, segir að þingmenn Evrópuþingsins hafi verið dónalegir við sig þegar hann tók til máls í umræðum í þinginu í morgun. 

Þeir hafi hrópað hann niður og kallað ókvæðisorð að honum. Þess vegna hafi hann ákveðið að ögra þeim aðeins.

Til umræðu á Evrópuþinginu var yfirvofandi brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. Púað var á Farage þegar hann tók til máls og einnig voru hróp gerð að Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 

Farage gagnrýndi þingmennina harðlega og sagði þá vera í algjörri afneitun. Þeir hefðu aldrei unnið almennilega vinnu á ævinni.

„Þegar ég kom hingað fyrst fyrir sautján árum sagði ég við ykkur að ég ætlaði að koma Bretum úr Evrópusambandinu. Þið hlóguð að mér. Þið hlæið ekki núna,“ sagði Farage í ræðu sinni.

Í samtali við Channel News 4 í kvöld sagði Farage að „vaxandi spenna“ væri í Bretlandi um þessar mundir. „Við munum verða land sem er opið og velkomið. Munurinn er hins vegar sá, vegna Brexit, að við getum nú stjórnað fjöldanum,“ sagði hann.

Frétt mbl.is: Evrópuþingmenn gagnrýndu úrsögnina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert