Fer ekki fram gegn Corbyn

Jeremy Corbyn og Tom Watson, varaformaður Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn og Tom Watson, varaformaður Verkamannaflokksins. AFP

Tom Watson, varaformaður breska Verkamannaflokksins, hyggst ekki bjóða sig fram gegn Jeremy Corbyn, sitjandi formanni flokksins. Þetta sagði hann í samtali við breska ríkisútvarpið í kvöld.

Hann sagðist hafa rætt margsinnis við Corbyn og reynt að komast að einhverri lausn, en formaðurinn hafi ekki viljað hvika frá afstöðu sinni.

Mikill meirihluti þingmanna flokksins hefur lýst yfir vantrausti á Corbyn, en hann hefur sagst ekki ætla að stíga til hliðar. Hann sé lýðræðislega kjörinn formaður flokksins.

„Ég vil biðja þjóðina afsökunar á klúðrinu sem hún horfir nú upp á í Westminster,“ sagði Watson. Um væri að ræða mikinn harmleik.

Stjórnmálaskýrendur töldu líklegt að Watson myndi fara fram gegn Corbyn, enda nýtur hann mikils trausts innan þingflokksins.

Watson viðurkenndi að Corbyn hefði umboð til formennsku frá flokksmönnum Verkamanna-flokksins. Flokksmennirnir yrðu samt sem áður að gera sér grein fyrir því að leiðtoginn þyrfti einnig á umboði þingmanna að halda. Það væri ekki fyrir hendi. 

Watson sagðist vera þeirrar skoðunar að Corbyn gæti ekki setið áfram sem formaður flokksins eftir atkvæðagreiðsluna í gær, þar sem meirihluti þingmanna lýsti yfir vantrausti á honum. „En ég er hræddur um að Jeremy vilji ekki ræða það við mig.“

Fastlega er gert ráð fyrir því að boðað verði til formannskosningar innan tíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert