Stærsti demantur heims á uppboð

Lesedi la Rona-demanturinn.
Lesedi la Rona-demanturinn. AFP

Búist er við því að stærsti óskorni demantur heims verði seldur á yfir 52 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 6,4 milljarða íslenskra króna, á Mayfair-uppboði Sotheby‘s í Lundúnum.

„Þetta uppboð er fordæmalaust að öllu leyti,“ segir David Bennett, forstöðumaður skartgripasviðs Sotheby‘s, í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC. „Steinninn er ekki bara einstakur að stærð og gæðum, heldur hefur enginn steinn sem er nálægt þessari stærðargráðu farið í almenna sölu á uppboði áður.“

Demanturinn, sem er talinn vera 2.500 milljóna ára gamall, fannst í Botsvana í sunnanverðri Afríku í nóvember og er 1109 karöt. Hlaut hann nafnið Lesedi la Rona, sem þýðir „ljósið okkar“ á twana-tungumálinu.

Lesedi la Rona er stærsti demantur sem finnst í meira en öld og sá næststærsti í sögunni, á eftir Cullinan-steininum, sem fannst í Suður-Afríku 1905, og Afríkustjarnan mikla, demanturinn sem prýðir veldissprota bresku krúnunnar, var skorinn úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert