Trump vill beita pyntingum á Ríki íslams

Donald Trump ávarpar stuðningsmenn sína.
Donald Trump ávarpar stuðningsmenn sína. AFP

Donald Trump kallaði eftir því að pyntingum yrði beitt á vígamenn Ríkis íslams, á fundi með stuðningsmönnum sínum í Ohio. Trump var að ræða sprengjuárásina á Atatürk flugvellinum í Istanbúl þegar ummælin féllu.

„Við verðum að berjast grimmilega, því við erum að eiga við ofbeldisfullt fólk“, sagði Trump, áður en hann var spurður um álit sitt á svokölluðum vatnspyntingum, eða „waterboarding“. „Mér líkar þær mjög vel. Ég held að þær séu ekki nógu harkalegar,“ svaraði Trump og uppskar fögnuð fundargesta.

Bandaríkjamenn bönnuðu vatnspyntingar 2006, en í þeim felst að lögð er ábreiða yfir andlit fórnarlambsins og vatni hellt yfir, svo fórnarlambinu finnst það vera að drukkna. Trump harmaði bannið á fundinum, þar sem liðsmenn Ríkis íslams geta beitt öllum þeim aðferðum sem þeir vilja. „Þeir geta höggvið af höfuð, drekkt fólki í stálbúrum, þeir geta gert allt sem þeir vilja gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert