Uppljóstrarar dæmdir í fangelsi

Frá vinstri til hægri: Franski blaðamaðurinn Edouard Perrin, Raphael Halet …
Frá vinstri til hægri: Franski blaðamaðurinn Edouard Perrin, Raphael Halet og Antoine Deltour, fyrrum starfsmenn PwC í Lúxemborg. AFP

Tveir fyrrverandi starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers í Lúxemborg hafa verið sakfelldir fyrir að hafa lekið skattaupplýsingum til fjölmiðla. Blaðamaðurinn sem fjallaði um upplýsingarnar var hins vegar sýknaður af öllum ákæruatriðum.

Starfsmennirnir, Antoine Deltour og Raphael Halet, hlutu tólf og níu mánaða fangelsisdóm fyrir að leka upplýsingunum. Þeir þurfa einnig að greiða 1.500 evrur í sekt.

Saksóknari málsins hafði farið fram á átján mánaða óskilorðsbundinn dóm.

Mennirnir tveir hafa fjörutíu daga til þess að áfrýja dómnum. Deltour sagðist í samtali við AFP ætla að áfrýja.

Saksóknarinn sakaði Deltour og Halet um þjófnað og sagði að þeir hefðu brotið trúnaðarákvæði í samningum þeirra við PricewaterhouseCoopers.

Hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er tíu ára fangelsisvist.

Saksóknarinn sakaði jafnframt blaðamanninn, Edouard Perrin, um að hafa farið út fyrir verksvið sitt og reynt að hafa óeðlileg áhrif á Halet til þess að hann læki upplýsingunum.

Roland Michel, lögmaður hans, vísaði því hins vegar á bug og sagði skjólstæðing sinn ekki hafa gert neitt rangt.

„Skjólstæðingur minn hefur aðeins gert eitt: leiða sannleikann í ljós,“ sagði hann. Að fordæma hann fyrir það væri siðferðilega rangt.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert