Johnson, Gove og May bítast um formanninn

Innanríkisráðherrann Theresa May er sögð munu tilkynna um framboð sitt …
Innanríkisráðherrann Theresa May er sögð munu tilkynna um framboð sitt til formanns Íhaldsflokksins í dag. AFP

Framboðsfrestur fyrir formannskosningar í Íhaldsflokknum rennur út í dag. Gengið er út frá því að Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri London og einn helsti talsmaður úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu, og Theresa May, innanríkisráðherra, tilkynni um framboð sín í dag. Michael Gove bauð sig óvænt fram í morgun.

David Cameron stígur til hliðar sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins eftir að hafa gegnt síðarnefnda embættinu í tíu ár í haust í kjölfar úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrsögn Breta úr ESB. Hann hefur sagt að nýrrar forystu sé þörf til að leiða viðræður við sambandið um aðskilnað.

Auk þeirra Johnson og May er búist við að Liam Fox, fyrrverandi varnarmálaráðherra flokksins, og Stephen Crabb, atvinnu- og eftirlaunaráðherrann, gefi kost á sér til embættisins. Andrea Leadsom, orkumálaráðherrann sem studdi Brexit, tilkynnti um framboð sitt í morgun.

Boris Johnson fór fremstur í flokki þeirra sem vildu Breta …
Boris Johnson fór fremstur í flokki þeirra sem vildu Breta úr ESB. AFP

Almennt hefur verið búist við að Johnson væri með pálmann í höndunum eftir að úrsögn úr ESB varð ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Dómsmálaráðherrann Michael Gove, sem hefur fram að þessu stutt Johnson, varpaði hins vegar sprengju inn í formannsvalið í morgun þegar hann tilkynnti að hann sæktist eftir embættinu sjálfur.

Í yfirlýsingu sagðist Gove hafa með trega komist að þeirri niðurstöðu að Boris væri ekki fær um að veita flokknum foyrstu eða setja saman teymi til að vinna að aðskilnaði Bretlands og ESB.

Michael Gove, dómsmálaráðherra Bretlands.
Michael Gove, dómsmálaráðherra Bretlands. AFP

Vill sérstakan ráðherra fyrir Brexit

May skrifaði í dagblaðið Times að hún sé fær um að sameina Bretland og að græða sárin sem þjóðaratkvæðagreiðslan hefur skilið eftir sig. Hún var fylgjandi áframhaldandi veru Breta í ESB en hélt sig að mestu til hlés í kosningabaráttunni. Hún lýsti sig þó fylgjandi takmörkunum á ferðafrelsi innan ríkja sambandsins.

Talið er að hún muni leggja upp með að sérstakur ráðherra fari með undirbúning aðskilnaðar Breta og Evrópusambandsins með ráðuneyti að baki sér.

Johnson mun að líkindum leggja áherslu á úrsögnina úr ESB í sínum málflutningi. Frekari sjálfsákvörðunarréttur muni fela í sér tækifæri fyrir Bretland.

Niðurstaða formannskosningarinnar á að verða ljós 9. september.

Frétt BBC

Uppfært 08:43: Bætt við fréttum af framboði Michael Gove sem tilkynnti óvænt um framboð sitt í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert