Kirgisi, Rússi og Úsbeki sprengdu sig

Mennirnir þrír sem taldir eru hafa sprengt sig í loft …
Mennirnir þrír sem taldir eru hafa sprengt sig í loft upp á flugvellinum. Skjáskot/Posta.com.tr

Mennirnir þrír sem sprengdu sig í loft upp á flugvellinum í Istanbul í Tyrklandi voru frá Rússlandi, Úsbekistan og Kirgistan. Þetta hafa fréttamiðlar í Tyrklandi eftir heimildarmönnum sínum sem tengjast tyrkneskum stjórnvöldum. Yfirvöld telja að Ríki íslams hafi staðið að baki voðaverkunum.

43 eru látnir og yfir 230 særðust. Í dag gerði lögreglan áhlaup og húsleitir og handtók 13 manns sem grunaðir eru um aðild að árásunum. 

Enn hafa nöfn árásarmannanna ekki verið gefin upp en tyrkneskir fjölmiðlar segja að einn þeirra hafi heitið Osman Vadinov og komið til Tyrklands frá Sýrlandi í fyrra. Hann er sagður hafa haldið til í Raqqa, einu helsta höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi. Fjölmiðlar segja hann frá Kákasussvæðinu í Rússlandi.

Á mynd sem tyrkneskir fjölmiðlar hafa birt sjást þrír menn sem sagðir eru vera árásarmennirnir, skömmu áður en þeir sprengdu sig í loft upp á flugvellinum. Tveir þeirra eru með derhúfur og einn þeirra brosir.

Tyrknesk stjórnvöld hafa ekki opinberlega sagt frá þjóðernum árásarmannanna. 

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert