Reknir vegna „stjarnfræðilegra“ launa

Hasan Rouhani, forseti Írans.
Hasan Rouhani, forseti Írans. AFP

Bankastjórar fjögurra ríkisbanka í Íran voru í dag reknir eftir að í ljós kom að þeir höfðu skammtað sjálfum sér ofurlaun, að sögn ríkisfréttastofunnar Irna.

Viðskiptaráðherra Írans skipti út bankastjórum Mehr Iran, Mellat, Refah og Saderat að beiðni Hassan Rouhani, forseta landsins.

Upplýsingum um laun bankastjóranna var nýlega lekið á internetið og vöktu þær mikla reiði í samfélaginu.

Í ljós kom að launin voru margfalt hærri en meðallaun í landinu.

Þá bárust einnig fregnir af því að bankastjórarnir hefðu fengið stórar bónusgreiðslur, vaxtalaus laun og ýmis skattfríðindi.

Íranska hagkerfið hefur ekki enn tekið við sér þrátt fyrir að öll helstu stórveldi heims hafi aflétt viðskiptaþvingunum gegn landinu í fyrra, í samræmi við samkomulagið sem írönsk stjórnvöld náðu við ríkin um kjarnorkuáætlun landsins.

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hefur sagt að tíðindin um „stjarnfræðileg laun“ bankastjóranna séu „árás á gildin okkar“. Íranir ættu þó að hafa í huga að um algjörar undantekningar séu að ræða.

„Það má ekki fresta málinu. Það ætti að fylgja því alvarlega eftir og upplýsa fólk um niðurstöðurnar.“

Forstjóri ríkistryggingafélags landsins, Central Insurance Co, sagði af sér í síðasta mánuði eftir að upplýsingum um launakjör yfirstjórnenda félagsins var lekið í fjölmiðla. Fékk hver um sig 28.300 dali í laun í marsmánuði.

Andstæðingar Rouhani hafa notað afhjúpunina til þess að benda á að lífskjör hafi lítið batnað eftir að Rouhani tók við forsetaembættinu. 

Rouhani viðurkenndi í síðustu viku að launin væru „lögleg“ en hann kenndi forvera sínum, Mahmoud Ahmadinejad, um að hafa upphaflega lagt blessun sína yfir svona há launakjör.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert