Reyndi að bjarga syni sínum

43 manns létust í hryðjuverkaárásinni.
43 manns létust í hryðjuverkaárásinni. AFP

Fathi Bayoudh, liðsforingi og læknir í túníska hernum, var síðasta þriðjudagskvöld staddur á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl í Tyrklandi. Þaðan hugðist hann fara til Sýrlands og freista þess að bjarga syni sínum úr klóm vígamanna Ríkis íslams.

Dr. Bayoudh, 58 ára að aldri, kom til Istanbúls fyrir aðeins fáeinum vikum, þar sem hann freistaði þess að finna son sinn, Anouar, 26 ára.

Anouar hafði nokkrum mánuðum fyrr flúið að heiman til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.

Þegar Bayoudh fékk þær fregnir í gegnum sendiráð Túnis í Tyrklandi að tyrknesk yfirvöld hefðu handtekið Anouar í þorpi nálægt landamærum Sýrlands, hringdi hann í eiginkonu sína í Túnis. Þau ákváðu að mæla sér mót á Ataturk-flugvellinum, einum fjölfarnasta flugvelli Evrópu, og ferðast þaðan til þorpsins þar sem sonur þeirra var.

Þar ætluðu þau að frelsa hann.

En aðeins rétt fyrir klukkan tíu að staðartíma síðasta þriðjudag, þegar Bayoudh beið rólegur á flugvellinum eftir konu sinni, hófu þrír menn skyndilega skothríð fyrir utan flugstöðvarbygginguna og sprengdu sig í kjölfarið í loft upp. 43 manns létust í árásinni, þar á meðal Bayoudh. Konan hans slapp.

Allt bendir til þess að vígamenn Ríkis íslams hafi staðið að baki árásinni. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.

Ataturk-flugvöllurinn í Istanbúl.
Ataturk-flugvöllurinn í Istanbúl. AFP

Vissu ekki af áformum sonarins

Bayoudh var mjög göfuglyndur maður, líflegur og hafði alltaf eitthvað fyrir stafni, að sögn Leylu Njim, náins vinar fjölskyldunnar.

Hann kleif ungur metorðastigann innan túníska hersins og stýrði barnalækningadeild herspítalans. Þá starfaði hann einnig fyrir nokkur hjálparsamtök í stríðshrjáðum löndum.

Þegar sonur hjónanna fór að heiman fyrr á þessu ári höfðu þau ekki minnstu hugmynd um að hann hefði í hyggju að ganga til liðs við Ríki íslams. Sjálfur sagðist hann hafa fengið starf í Sviss.

Anouar fór þvert á móti aldrei til Sviss, heldur ferðaðist til Frakklands, þaðan til Tyrklands og loks til Íraks. Þar gekk hann til liðs við samtökin alræmdu og lá leiðin því næst til Sýrlands.

AFP

Vildi fara aftur heim

Ferðalagið tók alls um þrjá mánuði. En þegar Anouar kom til Sýrlands fékk hann bakþanka. Hann vitkaðist og áttaði sig á því að lífið þar var ekki eins og hann hafði gert ráð fyrir.

Hann hringdi til föður síns um mánuði síðar og sagðist vilja snúa heim. Honum tókst að flýja bækistöðvar samtakanna og gefa sig fram við tyrkneska landamæraverði.

Í fréttaskýringu New York Times kemur fram að um þrjú þúsund ungir Túnisbúar hafi gengið til liðs við íslömsk hryðjuverkasamtök og barist í Sýrlandi á undanförnum árum. Atvinnuleysi ungs fólks er mikið í landinu og þykir erfitt að öðlast menntun.

Margt ungt fólk, líkt og Anouar, villist af leið og leitar að eins konar samfélagslegri viðurkenningu eftir öðrum leiðum en þeirri sem venjulega er tengd menntun og atvinnu.

AFP

Missti tökin á lífinu

Anouar átti erfitt uppdráttar í lífinu, að sögn New York Times. Hann nam fyrst læknisfræði í Máritaníu en venti kvæði sínu í kross og fór í flugnám í Túnis. Hann missti á hinn bóginn fljótt áhugann og hafði skráð sig í viðskiptafræðinám þegar hann tók hina afdrifaríku ákvörðun að fara til Sýrlands.

Njim, vinur fjölskyldunnar, segir að Bayoudh hafi orðið harmi sleginn þegar hann frétti af því að sonur hans hefði lýst yfir hollustu við hryðjuverkasamtökin. Hann var í áfalli. Hann var þó ávallt vongóður um að Anouar myndi að endingu snúast hugur. „Hann elskaði son sinn svo heitt,“ segir Njim. „Hann hefði gert hvað sem er fyrir hann. Hann fór til þess að fá hann aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert