Sýni ekki Bretum óþarfa hörku

Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands.
Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands. AFP

Helmut Kohl, fyrrverandi Þýskalandskanslari, hefur varað leiðtoga Evrópusambandsins við því að setja of mikla pressu á Breta í kjölfar ákvörðunar þeirra um að yfirgefa sambandið.

Í viðtali við þýska dagblaðið Bild brýnir hann fyrir leiðtogunum að sýna ekki óþarfa hörku gagnvart Bretum og vinna heldur ekki í of miklum flýti í komandi samningaviðræðum sínum við bresk stjórnvöld.

Kohl, sem barðist á tíunda áratug síðustu aldar fyrir nánari samvinnu Evrópusambandsríkja á sem flestum sviðum, segir í viðtalinu að það yrðu „risastór mistök“ af hálfu Evrópusambandsins að skella dyrunum á Breta. Þjóðin þurfi tíma til þess að ákveða hver næstu skref verði.

Hann kallar jafnframt eftir því að Evrópusambandið slaki nú á og taki „eitt skref aftur á bak áður en það tekur tvö skref fram á við“ á hraða sem sé viðráðanlegur fyrir öll aðildarríkin.

Í stað þess að stíga skref í átt til aukinnar miðstýringar ættu leiðtogar sambandsins að hafa það í huga að aðildarríki sambandsins séu mismunandi, að því er segir í frétt The Guardian.

Hin sérstaka staða Bretlands innan Evrópusambandsins hafi ávallt verið erfitt og krefjandi viðfangsefni. Hún ætti samt sem áður rætur að rekja til sögu landsins. Virða þyrfti það. „Hún er líka hluti af fjölbreytileika Evrópu,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert