Biðja leiðtoga talíbana um miskunn

Coleman-hjónin telja víst að dóttir þeirra og tengdasonur séu í …
Coleman-hjónin telja víst að dóttir þeirra og tengdasonur séu í haldi talíbana í Afganistan. Dóttir þeirra, Caitlan, er sögð hafa eignast tvo drengi á þeim fjórum árum sem hún hefur verið í haldi. AFP

Foreldrar bandarískrar konu sem hvarf í Afganistan fyrir fjórum árum hafa biðlað til talíbana um að sleppa konunni og fjölskyldu hennar úr haldi. Caitlan Coleman var barnshafandi þegar hún og eiginmaður hennar, hinn kanadíski Joshua Boyle, voru fönguð. Hún hefur síðan eignast tvo syni.

James og Lyn Coleman, sem búa í Pennsylvaníu, telja víst að dóttir sín, tengdasonur og barnabörn séu í haldi talíbana og hafa biðlað til leiðtoga þeirra, Haibatullah Akhundzada, um að leyfa þeim að fara.

Í stuttu myndbandi segjast hjónin þrá að endurheimta dóttur sína og fjölskyldu. Á myndbandinu sjást James og Lyn sitja hlið við hlið og er hár Lyn hulið með svartri slæðu.

James biður talíbana um miskunn og um að leyfa „Caity“ að koma heim. „Megi Guð launa þér góðverk þitt og sjá til þess að þér verði endurgoldið, Eid Mubarak,“ segir hann. Hátíðin Eid al-Fitr, sem markar enda Ramadan, hefst í næstu viku.

Coleman-hjónin sáu dóttur sína síðast í júlí 2012, þegar hún ferðaðist til Rússlands þar sem hún lagði af stað í gönguferðalag ásamt Boyle. Leið þeirra lá m.a. til Afganistan.

Hjónin heyrðu síðast frá Caitlan í nóvember sl., þegar hún sendi þeim bréf þar sem fram kom að hún og Boyle væru enn á lifi og að hún hefði eignast annan son.

Parið sást síðast í myndbandi sem sent var til foreldra Caitlan í tölvupósti árið 2013. Þar báðu þau bandarísk stjórnvöld og fjölskyldur sínar um að sjá til þess að þau yrðu frelsuð.

Coleman-hjónin gerðu myndbandið opinbert í kjölfar þess að samið var um lausn hermannsins Bowe Bergdahl. Hann var látin laus í fangaskiptum eftir að hafa verið í haldi í Afganistan í fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert