Tók „selfie“ með fórnarlambi nauðgunar

Myndin af myndatökunni vakti gríðarlega hörð viðbrögð.
Myndin af myndatökunni vakti gríðarlega hörð viðbrögð.

Indversk stjórnmálakona hefur sagt af sér í kjölfar gagnrýni fyrir að hafa tekið mynd af sér skælbrosandi með fórnarlambi nauðgunar. Somya Gurjar átti sæti í kvennanefnd ríkisstjórnarinnar. Hún hitti fórnarlamb nauðgunar á lögreglustöð á miðvikudag og tók mynd af sér með því. Mynd af myndatökunni var birt á WhatsApp og svo víða á samfélagsmiðlum. 

Konan hafði komið á lögreglustöðina til að tilkynna að eiginmaður hennar og tveir ættingjar hans hefðu nauðgað sér. Mennirnir höfðu svo húðflúrað blótsyrði á enni konunnar og hendur. 

Nefndarkonan Gurjar segir að myndatakan hafi verið gerð til að róa konuna. Hún hafi verið forvitin og beðið sig að taka mynd af sér. „Ég tók bara myndina til að róa hana og af því að hún bað um það. Ég var að reyna að nálgast hana af manngæsku.“

En myndbirtingin af myndatökunni vakti strax gríðarlega hörð viðbrögð, m.a. á samfélagsmiðlum, ekki síst í ljósi þess að á Indlandi er bannað að birta upplýsingar sem gætu leitt til þess að kennsl eru borin á fórnarlömb kynferðisglæpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert