Lögmaður og skjólstæðingur hans myrtir

Willie Kimani fannst látinn í gærkvöldi.
Willie Kimani fannst látinn í gærkvöldi.

Lík ungs kenísks lögmanns og skjólstæðings hans fundust í á við höfuðborgina Nairobi seint í gærkvöldi. Mennirnir hurfu eftir að hafa komið fyrir dóm í síðustu viku, í máli gegn kenísku lögreglunni. Þrír lögreglumenn eru grunaðir um morðin á þeim.

Lögmaðurinn, Willie Kimani, var verjandi í máli skjólstæðings síns gegn lögreglunni, en sá hafði verið skotinn af lögreglumanni þegar hann var stöðvaður í umferðareftirliti í apríl 2015. Lík mannanna voru í mjög slæmu ástandi þegar þau fundust seint í gærkvöldi, en þeim hafði verið pakkað inn í plast og hent í ánna. Eitt lík til viðbótar fannst í ánni, en talið er að það sé af leigubílstjóra sem keyrði mennina úr dómssalnum.

„Þetta er dimmur dagur fyrir réttarríkið í Kenía,“ sagði formaður lögmannafélagsins í Kenía í dag. „Okkar verstu martraðir eru orðnar að veruleika. Málsvarar og borgarar eiga í hættu á því að vera myrtir af dauðasveitum lögreglu.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lítur út fyrir að mennirnir hafi verið pyntaðir áður en þeir létust, en meðal annars var búið var að klippa af þeim fingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert