Sakar útgöngusinna um uppgjöf

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sakaði í morgun Boris Johnson og Nigel Farage, sem hafa verið helstu talsmenn þess að Bretar yfirgefi sambandið, um að hætta um leið og syrti í álinn.

„Brexit-hetjur gærdagsins eru nú sorgmæddu Brexit-hetjur dagsins í dag,“ sagði hann í umræðum á Evrópuþinginu.

Evrópuþingmenn jusu í morgun úr skálum reiði sinnar vegna ákvörðunar Breta um að segja skilið við Evrópusambandið.

Juncker talaði um þá sem börðust fyrir útgöngu Breta úr sambandinu sem „fortíðarþjóðernissinna“. „Föðurlandsvinir segja ekki af sér þegar hlutirnir verða erfiðir. Þeir halda áfram,“ sagði hann.

Skilur ekki eftir hverju þeir eru að bíða

Hann sagðist jafnframt ekki skilja af hverju breskir útgöngusinnar vildu bíða en ekki hefja úrsagnarferlið strax með formlegum hætti.

„Í stað þess að búa til áætlun eru þeir að yfirgefa bátinn,“ sagði hann.

Boris Johnson kom öllum að óvörum í síðustu viku þegar hann sagðist ekki ætla að gefa kost á sér sem næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins.

Hann var talinn líklegastur til þess að taka við af David Cameron sem formaður flokksins og forsætisráðherra Bretlands.

Þá tilkynnti Nigel Farage í gær að hann hygðist stíga til hliðar sem leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins, UKIP. Bretar hefðu kosið að segja skilið við Evrópusambandið og þar með væri pólitískum metnaði hans fullnægt.

Farage hefur oft og mörgum sinnum átt í hörðum orðaskiptum við Juncker á Evrópuþinginu.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði við Evrópuþingmennina í morgun að ákvörðun Breta hefði verið „ákaflega óheppileg“, sér í lagi fyrir Breta sjálfa. Pólitískt, efnahagslegt og stjórnskipunarlegt hrun væri í landinu. Það ætti eftir að taka Breta mörg ár að koma sér úr þessu klandri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert