Theresa May sigraði í fyrstu umferð

Verður Theresa May næsti formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands?
Verður Theresa May næsti formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands? AFP

Theresa May sigraði í fyrstu umferð kosninga Íhaldsflokks Bretlands sem kýs um þessar mundir eftirmann Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands og formanns Íhaldsflokksins.

330 þingmenn Íhaldsflokksins kusu á milli fimm frambjóðenda í dag. Fæst atkvæði fékk Liam Fox, 16, og fellur hann því út þegar kosið verður á milli þeirra fjögurra sem eftir standa á fimmtudag.

Á fimmtudag dettur síðan aftur út sá sem fær fæst atkvæði, kosið verður á milli þeirra þriggja sem eftir standa á þriðjudaginn eftir viku og velja flokksmenn Íhaldsflokksins á milli þeirra tveggja sem eftir eru í bréfkosningu. Endanleg niðurstaða mun liggja fyrir hinn 9. september nk.

Theresa May, sem er innanríkisráðherra Bretlands, hlaut 165 atkvæði en næst á eftir varð Andrea Leadsom með 66 atkvæði. Leadsom nýtur m.a. stuðnings Boris Johnsons, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna.

Sá sem sigrar í kosningu Íhaldsflokksins tekur við af Cameron bæði sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins en Cameron tilkynnti fyrirhugaða afsögn sína eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hinn 23. júní sl. um aðild Breta að Evrópusambandinu voru kunngerð.

May studdi áframhaldandi veru Breta innan Evrópusambandsins í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar en Leadsom vildi út. Í þriðja sæti í kosningunni í kvöld varð Michael Gove, dómsmálaráðherra Bretlands, með 48 atkvæði.

Hann barðist einnig fyrir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu en hefur fengið þónokkra þingmenn Íhaldsflokksins upp á móti sér nýverið þar sem hann kann að hafa komið í veg fyrir framboð Boris í kosningunum með sínu eigin framboði.

Stephen Crabb varð fjórði með 34 atkvæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert