Þunglyndi ísbjörninn er dauður

Arturo.
Arturo. AFP

Hann varð þunglyndur eftir að hafa misst maka sinn úr krabbameini fyrir fjórum árum. Undir lokin var hann orðinn veikburða vegna aldurs og farinn að tapa sjón og bragðskyni. Fjölmargir kröfðust þess að hann yrði fluttur á kaldari slóðir en því var hafnað.

Arturo, eini ísbjörn Argentínu, drapst í Mendoza-dýragarðinum á sunnudag. Hann var þrjátíu ára gamall. Vegna heilsubrests hans hafði starfsfólkið sem fylgdist með honum íhugað að svæfa hann svo hann myndi ekki þjást meira en áður en til þess kom hætti hjartað að slá.

Björninn var fluttur frá Bandaríkjunum til Argentínu þegar hann var átta ára gamall. Eftir það bjó hann alltaf í borginni Mendoza þar sem hitinn fer yfir 30 stig. Enginn hefur mátt heimsækja dýragarðinn þar sem Arturo bjó frá því í síðasta mánuði eftir að í ljós kom að sextíu dýr höfðu drepist í garðinum á hálfu ári.

Winner, ísbjörn sem bjó í höfuðborginni Buenos Aires, drapst árið 2012 þegar hitabylgja reið yfir. Pelusa, maki Arturo, drapst úr krabbameini árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert