Gæti losnað út eftir tvö ár

Oscar Pistorius var í dag dæmdur í 6 ára fangelsi.
Oscar Pistorius var í dag dæmdur í 6 ára fangelsi. AFP

Spretthlauparinn Oscar Pistorius gæti losnað úr fangelsi eftir aðeins tvö ár, þrátt fyrir að hafa í dag verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir morðið á Reevu Steenkamp. Stafar þetta af því að hann er nú þegar búinn að sitja í fangelsi í tíu mánuði og hefur þegar nýtt sér meðferðarúrræði sem líklegt er að honum verði boðið upp á áfram. 

Fjölmiðlar um allan heim fjalla um mál hans í dag, og beðið er eftir því að ákæruvaldið í Suður-Afríku tilkynni um hvort það muni áfrýja dómnum eða ekki. Fyrr í dag tilkynntu lögmenn Pistorius frá því að hann myndi ekki áfrýja dómnum, enda væri niðurstaðan „sanngjörn“.

Gæti Pistorius því hugsanlega verið látinn laus úr hefðbundnu fangelsi fyrr en áætlað er, og þess í stað sætt stofufangelsi. Eins og kunnugt er losnaði hann úr fang­elsi í borg­inni Pret­oríu í Suður-Afr­íku í októ­ber eft­ir að hafa afplánað tíu mánuði af fimm ára dómi sem hann fékk fyr­ir mann­dráp af gá­leysi. Áfrýj­un­ar­dóm­stóll breytti dóm­in­um í des­em­ber og sak­felldi hann fyr­ir morð. Í morg­un var refs­ing svo kveðin upp yfir hon­um; sex ára fang­elsi. 

Dóm­stóll­inn dæm­ir menn venju­lega í að minnsta kosti 15 ára fang­elsi fyr­ir morð, en dóm­ar­inn Tho­kozile Masipa vék frá þessu og taldi upp fjöl­marg­ar staðreynd­ir sem hún taldi til mild­un­ar dóms­ins. Sú staðreynd að hann hefði reynt að bjarga lífi Steenkamp eft­ir að hann skaut hana hafi átt stór­an þátt í mild­un dóms­ins, sem og sú staðreynd að hann hafi ít­rekað reynt að biðja fjöl­skyldu henn­ar af­sök­un­ar.

Masipa sagði að löng fang­els­is­vist myndi ekki þjóna til­gangi sín­um í þessu máli. Pistorius væri ólík­leg­ur til að fremja end­ur­tek­in brot og hann hefði sýnt mikla iðrun í gegn­um rétt­ar­höld­in. Þar að auki væri hann viðkvæm­ur og ætti erfitt upp­drátt­ar í fang­elsi. 

Bróðir Pistorius, Carl Pistorius, tjáði sig um dóminn á Twitter í dag og sagði að réttlætið hefði náð fram að ganga.

Vinkona Steenkamp, Kim Myers, gaf þó í skyn á Twitter að hún væri ekki sátt við dóminn þar sem hún notaði myllumerkið #5forCulp6forMurder og vísaði þannig í að Pistorius hefði verið dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, en aðeins ár lengur fyrir morð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert