Leadsom og May berjast um formannsstólinn

Andrea Leadsom hlaut 84 atkvæði í fyrstu umferð, Theresa May …
Andrea Leadsom hlaut 84 atkvæði í fyrstu umferð, Theresa May 199 og Michael Gove 46. Hinar tvær fyrrnefndu munu því keppa um formannssætið. AFP

Allt bendir til þess að næsti forsætisráðherra Bretlands verði kona eftir að þær Theresa May og Andrea Leadsom unnu fyrstu umferð í formannsslag breska Íhaldsflokksins. Verða þær tvær því á kjörseðlinum þegar 150 þúsund flokksfélagar greiða atkvæði í formannsslagnum í sumar.

Theresa May, sem gegnir nú embætti innanríkisráðherra, fékk langflest atkvæði í fyrstu umferð, eða 199. Leadsom hlaut 84 atkvæði en Michael Gove, sem bauð sig fram öllum að óvörum eftir að hafa sagst ætla að styðja Boris Johnson, hlaut aðeins 46 atkvæði og verður því ekki á kjörseðlinum.

David Cameron er núverandi formaður flokksins og forsætisráðherra. Hann tilkynnti afsögn sína sem formaður í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu, sem já-hliðin tapaði. Annaðhvort May eða Leadsom munu því taka við formannsembættinu og að öllum líkindum forsætisráðherrastólnum í kjölfarið. Verður önnur hvor þeirra því sennilega fyrsti kvenkyns forsætisráðherra landsins frá því að Margaret Thatcher gegndi embættinu frá 1979-1990. Thatcher var á sínum tíma formaður Íhaldsflokksins.

Sjá frétt Daily Mail.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert